Tuesday, October 7, 2008

Enga eymd, ekkert volæði

Góðan daginn kæru landar

Nú er um að gera að hrista af sér slenið og skipuleggja hversdagsleikann upp á nýtt. Það þýðir ekkert að leggjast í volæði og eymd - Það skiptir máli halda sér á floti og endurskoða lífsgildi sín. Það er margt sem hægt er að gera þó svo að kreditkortið sé klippt, þjónusturáðgjafinn í bankanum sé í áfallahjálp og flugmiðinn á árshátíðina í London sé rifinn.

Hér eru nokkur dæmi um það sem hægt er að gera án þess að setja þurfi á raðgreiðslur.

1. Endurnýja bókasafnskortið - fullt af fínum dvd diskum leigðir út á lágmarksverði
2. Dusta rykið af vöfflujárninu og bjóða heim í kaffi
3. Endurnýta skóskápinn með skóaburði og pússun
4. Draga fram Matador og öll hin 80´spilin
5. Skipuleggja ættarmót
6. Stunda jarðarfarir
7. Fylgjast með Ragnheði Steinunni og Jónsa á sjónvarpsskjánum
8. Demba sér í að skrifa fjölskyldusöguna
9. Föndra jólagjafir
10. Glugga í draumaráðningarbækur og lesa Öldina okkar

Friday, September 26, 2008

Teiti og boð

Eg er mikill aðdáandi Stefan´s og þykir fátt skemtilegra en að þyggja leiðbeiningar frá honum. Þar sem ég er á leið í starfsmanna "teiti" í kvöld leitaði eg ráða hjá honum um hvað ber að varast og hvað sé mikilvægt að huga að fyrir slík boð.

Stefan tjáði mér að nauðsynlegt sé að þyggja slík boð, sérstaklega ef yfirmaðurinn hefur boðað komu sína, hvað þá heldur ef boðið er haldið heima hjá yfirmanni. Hverskyns boð og teiti eru eitt af áhugmálum hans enda er hann mikill áhugamaður um fagmannlega hvítvíns"smökkun". Hann leggur þó ekki lið sitt við teiti sem líkjast tvítugsafmælum á skemtistaðabúllum þar sem leigður er lítill bjórkútur fyrir þá sem mæta fyrst. Hvað þá heldur fimmtugsafmæli með kerlingum sem klæðast sama dressi og þegar yngsta barnið fermdist, rúllandi á gólfinu a eftir eiginmönnunum sem hlaupa undan með drykk í hendi, guðs lifandi fegnir að fá tækifæri á að bragða áfengi á meðal fólks. Fimmtugsafmælin geta þó verið Smart með vel útilátnum opnum bar og passlega Léttum pinnamat - Opni barinn missir þó allan Sjarmann þegar of stórar majones brauðsnyttur eru á boðstólnum eða pappaskálar á borðum með hnetum sem gestir kunna ekki einu sinni að bera fram nafnið á.


Eins og áður hefur komið fram hefur Stefan skoðanir, ekki síst á samkundum sem þessum þ.e.s starfsmanna "teitum". Hér skal þó stiklað á stóru yfir hans helstu ráð.

Nauðsynlegt er að þakka fyrir boðið og tillkynna komu sína, gott er að hafa hnittna spurningu sem neyðir viðkomandi til að svar hvort ekki sé Léttvín í boði án þess þó að gefa upp of mikið um "Reynslu" sína í Léttvínssmökkun.

Mikilvægt er að klæða sig eftir tilefni og Gullna reglan er þessi: Frekar "overdressed" en "underdressed".

Ef svo ílla vill til að makar séu velkomnir, þá skal gott fordæmi sýnt og afþakkað boðið fyrir makann þar sem hann er staddur erlendis.

Það er ekki virðing við gestgjafann að mæta stunvíslega, gætir lent í að þurfa aðstoða við að bera fram pinnamatinn og skenkja í glös. Þó skal ekki mætt of seint. Það er nauðsynlegt að fá andlit sitt fest á filmu meðan boðið er enn Smart - það eru þær myndirnar sem sýndar verða á innri vef fyrirtækisins á mánudeginum.

Gott er að mæta með litla pena gjöf handa gestgjafanum en þó ber að varast að leggja of mikinn pening út fyrir slíku þar sem gestgjafinn mun örugglega ekki muna hver kom með gjöfina. Frekar skal sett nokkrar extra krónur í eina góða Chablis eða Chardoney og dreypa á heimavið fyrir boðið.

Það borgar sig ekki þegar komið er í boðið að spyrja hvort skal farið úr skónum. Þó að þú sért ekki áskrifandi af táfýludjöflinum þá getur þú bókað að aðrir eru í langtímaáskrift. Taktu það sem sjálfsagðan hlut að ekki sé kastað af sér lakkskónum.

Þegar inn er komið skaltu heilsa gestgjafanum og kast á hann litlu yfirborðshrósi og heilsa nærstöddum með handabandi eða koss á kinn. Öðrum skal heilsað með því að kinka kolli og brosa örlítið. Þó gæti nægt að brosa með augunum til sumra þ.e.s þeirra sem ekki verðskulda nærveru þína.

Taktu þér góðan tíma áður en þú sest. Ef sest er á fyrsta besta kollinn gæti það merkt að þú bærir ekki næga virðingu fyrir sjálfum þér og komið þér í vandræði þar sem þú hefur ekki ákvörðunarvaldið um hvaða ónytjungur sest við hlið þér. Gott er að finna sér stað þar sem þú getur boðið ðahugaverðum deildarstórum að tylla sér hjá þér: Einnig er afar mikilvægt og ætti ekki að þurfa taka fram að þú skal ekki vera langt frá áfyllingardeildinni, þó skaltu ekki setja flösku á borðið og gefa þannig til kynna að blautrassarnir sem verða með angistarsvipinn á mánudeginum setjist hjá þér.

Ef yfirmaður fer snemma skaltu grípa tækifærið og verða honum samferða út (þú átt enn Chablis flöskuna heima). Annars er gott viðmið að láta sig hverfa þegar dömurnar eru farnar að dansa berfættar og röð komin á klósettið.



Ég hef engar áhyggjur af boðinu í kvöld með þessar leiðbeiningar í fararteskinu.
Bestu kveðjur og góða helgi,
F.

Thursday, September 25, 2008

Stefan hefur skoðun a "Facebook"

Nú hef ég verið meðlimur á Facebook í næstum heila viku, það hafa því miður nokkrar klukkustundirnar farið í slugs á Andlitabókinni.

Stefan hefur skoðanir á þessum samskiptavef og telur að margir geti haft not fyrir að velta þessum hugleiðingum hans vel fyrir sér.

1. Aldrei að gleyma að skrá þig reglulega út - ekki hafa þessa síðu opna allan daginn. Það er ekki uppliftandi fyrir mannorð þitt og nauðsynlegt er að gefa til kynna að þú hafir margt annaðvið dýrmætan tíma þinn að gera en að tæla til þín ókunnuga og kalla þá vini.

2. Veldu vandlega þær myndir sem þú setur af sjálfum þér inn á þessa síðu. Það þarf ekki fleir orð um þetta ráð.

3. Athugaðu hvaða hópa þú leggur nafn þitt við og skoðaðu hversllags fólk hefur skráð sig í viðkomandi hóp. Þú skalt vera samfélagslega ábyrgur en þó ekki með of sterka skoðun og aldrei að leggja nafn þit við aðdáendahópa líkt og: "I love mom", "Ætla á óliver um helgina" o.s.frv.

4. Vandaðu málfar þitt og vertu öðrum til fyrirmyndar um íslenska málnotkun. Þar sem þú ert mikill heimsborgari og hefur safnað þónokkru magni af erlendum "vinum" getur það reynst nauðsynlegt að tjá sig á erlendu máli, þá er mikilvægt að hafa orðabók við hönd og fletta upp góðum og gildum enskum orðum. Það er ágætt ef viðtakandi þarf einnig að fletta upp orðinu til að skilja þig.

5. Það ber að forðast að svara póstum og vinabeiðnum um leið og það berst í innhólfið (sjá punkt 1.)

6. Ef gamlir skólafelagar setja sig í samband og bjóða aðgang að Barnalandi. Þá þakkar þú pent fyrir og gefur til kynna að þú sért nýkominn til landsins og sért mikið á ferð og flugi vegna viðskipta - þannig forðast þú Barnalands boðskort.

7. Ef þú hefur sterka þörf á að breyta svokölluðum "status" á þinni síðu, þá skal ekki slengja fram ódýrum settningum á borð við: "Þreyttur", "Djamm", "Bumbulína er á leið í heimsókn", "Pizzan á leiðinni", "Hlakka til að sofa" o.s.frv. Frekar skal tekið fram að þú sért á leið í Joga og ætlir í einn SojaChai á efir eða sért að fletta Travel tímaritum, nú eða jafnvel að þú sért að bíða eftir samtali við Eyjólf í Epal.

8. Það er misjafnt hversu marga "vini" fólk virðist eiga á samskiptasíðunni. Stefan mælir með að fólk reyni að halda sér á milli 200 og 400 vina. Það gefur til kynna að þú sért vel tengdur en takir ekki við öllu hyskinu.

9.Afmælisdagbókina, hægra megin á síðunni má nota. Það er þó mun betra að finna símanúmerið hjá viðkomandi afmælisbarni og senta pen textskilaboð. Það gefur til kynna að þú sért með alla afmælisdaga á hreinu og ekkert fari fram hjá þér. Með því að senda póst í gegn um síðuna ertu ekkert öðruvísi en hver annar og alls ekkert sérstakur.

10. Af öllum mætti skal forðast umræðu um samskiptavefinn í hverskyns boðum og teitum.

Stefan

Stefan mælir með...

í dag mælir Stefan með:

- Hringja í vini sem hafa ekki látið heyra frá sér í furðu langan tíma og skella á - þegar þeir svo hringja til baka þá mælir Stefan með að láta hringja út og sýna þannig hversu upptekinn þú ert.

- Nú fer að líða að helgi og sumir jafnvel farnir að plana heimsókn í Ríkisbúlluna, þurrir í hálsinum. Stefan mælir með að leggja bílnum, nýþveggnum auðvitað, á bílastæði nærliggjandi verslana til að forðast dóm annarra - leyfir þér líka að dæma aðra enn harðar.

- Stefan mælir með að þú gangir ekki beint að sama rekka og vanalega, í Ríkisbúllunni, til að hrifsa til þín ódýra hvítvínsdúnkinn heldur biðjir um fagmannlega aðstoð með spurningum líkt og: "Ég er með lítið boð, langar að bjóða upp á eitthvað...." eða segir frekar hátt: "Ég kem svo sjaldan hingað, ég veit varla að hverju ég er að leita".

-Stefan mælir með lituðum kubbakertum úr Tiger fyrir öll litlu heimilisboðin - þannig má lífga upp á annars mjög þunglindisleg fjölskylduboð. Þó ber að varast að trítla út a götu með merktan poka - mun betra og gefur þér punkta í smart-kladdann að taka með poka úr örlítið fínni verslunarkeðju.

-Til að fullkoma helgina er nauðsynlegt að láta sjá sig á nokkrum stöðum og gefa þannig til kynna að þú lifir innihaldsríku lífi og sért ákaflega félagslega vel tengdur. Ef þú ert upptekinn með gúrkumaskann og frek börn þá nægir þér að versla í Hagkaup Kringlunni á föstudegi, taka stuttan göngutúr við vinsælt bílastæði í Heiðmörk á laugardagsmorgni og panta svo eitt léttvínsglas á stað í miðborginni á laugardagseftirmiðdegi - það þýðir ekki að sulla yfir sig öli á kjallaraknæpunni, það sér þig engin þar. Skildu gríslingana eftir í Hallargarðinum, þú getur bundið þau við runna ef þörf þykir. Það eru alls ekki rétt skilaboð að drösla óvitunum inn á kaffihús - það gefur ekki þau skilaboð að þú lifir innihaldsríku lífi með stjórn á hlutunum. Með þessum þrem stoppum er hægt að bjarga sér um helgar og þú getur þá leyft þér að liggja heima í gamla jogginginu - mundu bara að svara ekki símanum þegar þú liggur heima.

Stefan lætur hér við sitja í dag, beinn í baki, og óskar ykkur öllum góðrar helgar.

Wednesday, September 24, 2008

Rassahringekja

Nú rembist maður við að halda ser við efnið og drita niður nokkrum vel völdum orðum hér a bloggið góða. Það er ekki alltaf auðvelt, stundum er ég svo pikkfastur í eigin egói að ég se ekki út - afleiðingar þessa eru þær að ég veltist um í hugsunum og kem engu fra mer, sípælandi hvað aðrir halda um mig, hvað mynd aðrir fá af mer o.s.frv. Ekki góður staður að vera á, að vera a bólakafi upp í rassgatinu a sjálfum sér að maður sér ekki það sem er að gerast í kringum sig.

Kikjum út úr rassgatinu öðru hvoru!

F.

Tuesday, September 23, 2008

Facebook

Ég hef staðið fast á því að ég hef ekkert að gera við Facebook - það yrði einungis tímaeyðsla fyrir mig og ég hafði fullkomlega á réttu að standa.

First lady birtist á föstudaginn brosandi út að eyrum og tilkynnti formlega að hann hefði nú búið til Facebook síðu fyrir mig. Úr því að hann var svona einstaklega stoltur og ánægður yfir þessu sköpunarverki sínu þá gat ég nú ekki annað en kíkt aðeins inn á Veraldavefinn og kannað þetta Facebook þema. Í stuttum orðum þá hef ég ekki slitið mig frá tölvuskjánum þar sem ég hef nú stundað ítarlega vinaleit í þrjá sólarhringa. Ég hrópa reglulega yfir kotið í kjallaranum þegar ég hef náð upp í næsta tug af vinum.

Ég get ekki sagt að ég sé stoltur yfir "aðgerðaleysi" mínu síðustu daga en þetta hefur veitt mér vissa fullnægju meðan á stóð.


Annars er það að frétta að eymd í hálsinum er afleiðing þess að syngja hástöfum í gleðskap - ef það skildi gagnast einhverjum í fyrirbyggjandi aðgerðum.

F.

Wednesday, September 17, 2008

Jamm - þá er Prinsinn mættur

Þá er sumarfríið á enda og prinsinn byrjaður að blogga að nýju. Viðburðaríkt sumar er á enda og hér skal stiklað á stóru yfir viðburði sumarsins.

Prinsinn hefur m.a.
-Flogið til Grænlands ásamt stórum hópi eldri borgara frá Selfossi.
-Smakkað hvalagúllaskássu - mæli ekki með henni.
-Glatt nokkra Grænlendinga yfir "casual dressed outfitti" þegar Prinsinn birtist í támjóu skónum, þröngu gallabuxunum með flugfreyjutöskuna ekki alveg viðbúinn klukkustundargöngu á möl.
-Drukkið ótæpilega af kampavíni í niðursveiflu krónunnar.
-Skipulagt sitt eigið 140 manna, tveggja daga brúðkaup með tveggja vikna fyrirvara.
-Fengið nett hláturskast á skrifstofu sýslumanns.
-Staðfest samvist sína með First lady.
-Farið á Íslendingaslóðir....á Krít.
-Styrkt Eyjólf í Epal.
-Sparkað útlenskum vinum í almenningssturtu í sundlauginni á Kirkjubæjarklaustri - sem aldrei hafa farið í almenningssturtu.
o.s.frv.

Prinsi í haustlitum