Wednesday, April 30, 2008

Heja Danmark!

Prinsinn hoppar hæð sína í dag. Koma krónprinsins og krónprinsessunnar hefur verið staðfest - þau lenda 5 maí.


Prinsinn og First lady bjóða Fredrik og Mary Donaldson hjartanlega velkomin - okkar heimili er ykkar heimili, velkomin á Kirkjuveginn.


Prinsi - bláa blóðið rennur

Monday, April 28, 2008

Hið ljufa konunglega lif

Prinsinn hefur ómælda ánægju af matarboðum, sérstaklega ef vel er lagt á borð. Það var ein slík veisla um helgina, vantaði þó hvíta borðdúkinn og hásætið...

Hér sjást myndir fyrir matarboð og eftir matarboð - ekki alltaf jafn glæsilegt....




Prinsi veisluglaði

Ekkert nesti - engin gleði



Prinsinn er úrvinda eftir öflugt félagslíf síðustu daga.

Prinsinn byrjaði með að kveðja veturinn með spilakvöldi á Kirkjuveginum - First lady var öflugur með spilastokkinn og góðir gestir kíktu við og tóku í spil með íbúum konungsríkisins að Kirkjuvegi.

Sumrinu var heilsað með eftirmiðdagsgöngu upp á Keili. Prinsinn var vakinn og skellt í ballettskóna og drifinn suður með sjó - nú skildi aldeilis koma konunglega blóðinu á hreyfingu...Ekki seinna vænna ef Prinsinn á að geta troðið sér í neonbleiku stuttbuxurnar. Gengið var yfir úfið hraunið og Prinsinn komst að þeirri leiðinlegu staðreynd að nestið hafði gleymst...jafnvel gleymst að kaupa nestið. Prinsinn hélt þó áfram, tipplandi á balletskónum yfir hraunið með ekkasog yfir gleymdu nesti. Þurrar döðlur teljast ekki nesti sem hentar Prinsinum. First lady skokkaði aftur á móti hress yfir hraunið, klæddur til að klífa Everest og sönglaði hástöfum" Við göngum svo léttir í lundu því lífsgleðin blasir oss við...." Gott teymi!

Prinsi göngugarpur

Tuesday, April 22, 2008

Esjaaan



Já nú er aldeilis komið að því. Fyrsta Esjugangan er plönuð eftir tvær vikur þ.e.s Þriðjudagurinn 6. maí. Uppáferðinni hefur verið seinkað um hálftíma. Það verður lagt af stað klukkan 18.30. Endilega látið boð berast.

Prinsinn sendir tölvupóst á þá sem vilja til áminningar.

Túttílú

Prinsi kominn í stígvélin

Wednesday, April 16, 2008

Esjan kallar

Svífur yfir Esjunni sólroðið ský....

Diljá hin fagra spurðist fyrir um Esjugönguna. Esjugangan er enn á planinu um leið og vorhreingerningin er afstaðin þ.e.s þegar snjórinn er að öllu horfin úr hlíðum Esjunnar og bjart er orðið nógu lengi til að skottast upp fjallshlíðarnar.

Planið er fyrir þá sem ekki vita er að hittast á þriðjudagskvöldum í vor og sumar við Esjurætur klukkan 18.00 og tölta upp á Esju. Komi þeir sem vilja, eins oft og þeir vilja og á þeim hraða sem þeir vilja. Málið er bara að njóta kvöldgöngunnar í góðum hópi - hreyfing og gleði, getur ekki orðið betri kokteill á þriðjudagskvöldum.


Annarskonar hópefli sem er á sumardagskránni er útileikir. Eina til tvær kvöldstundir í mánuði er hittingur miðsvæðis í borginni og farið í góða og gilda leiki s.s eina krónu, stórfiskaleik, fallin spýta o.s.frv. Allir velkomnir.


Prinsi teambuilder


p.s. Nú er Prinsinn að leita eftir gömlum slæðum, beltum, handtöskum, hárskrauti og skartgripunum. Alltaf að skapa. Þeir sem luma á slíku góssi og vilja styrkja konungsríkið, þá tekur Prinsinn mjög gjarnan við slíkum framlögum og býður ekki bara innleggsnótu í speltvöfflur á Kirkjuveginum heldur bætir um betur og býður nýkreistan ávaxtasafa með til að skola niður dýrindis vöfflunum.

Tuesday, April 15, 2008

Prinsinn, Þorhallur og Bette Midler

Prinsinn varð örlítið andlaus í kvöld eftir að hafa notað orkuna í að andskotans yfir stöðnun Kastljóss. Því varð úr að Prinsinn skellti sér á hin konunglega fák og hjólaði af stað ásamt Bette Midler, Dionne Washington, Dolly Parton og fleiri góðum vinum. Prinsinn og vinirnir hjóluðu yfir holt og hæðir, sem er mjög auðvelt að segja um Fjörðinn og sungu hástöfum til að yfirgnæfa óhljóðin í ósmurðri keðjunni á hjólafáknum. Að endingu, þar sem Prinsinn stóð lafmóður fyrir framan klaustrið færðist andinn yfir Prinsinn og hann hélt heim á leið til að vesenast með nýjustu hugmynd sína, uppfullur af sköpunargleði og löngu búinn að gleyma Þórhalli í Kastljósinu.

Prinsi skapandi himins og jarðar


p.s - Ef þið lumið á skartgripum, hálfum eða heilum sem þið hafið ekki hugsað ykkur að nota framvegis þá þyggur Prinsinn það með þökkum og gefur innleggsnótu í spelt vöfflur á Kirkjuveginum í staðinn.

í dag er dagurinn

Í dag mælir Prinsinn með:

Að ljúka því sem er óklárað s.s þvotturinn sem hangir á snúrunni, talan sem er laus á buxunum, gluggapósturinn sem á eftir að fara í bókhaldið o.s.frv.

Að hringja í ömmuna og/eða afann - getur gert vikuna þeirra enn betri.

Að tjá væntumþykju sína til einhvers sem hefur ekki heyrt það lengi.

Að gefa sér örlítinn tíma til að minnast þess sem maður hefur áorkað og örlítið minni tíma í að veltast og væla.

Að loka einhverju máli sem hefur truflað mann í x langan tíma.

Að setja sér jákvætt markmið fyrir vikuna.

Að anda að sér fersku lofti....og njóta þess.

Að fara snemma að sofa og eiga góða morgunstund með kertaljós og góða tónlist.

Að ögra sjálfum sér.

Að prófa að bursta tennurnar á annan hátt en gert er venjulega.

Að finna að maður sé lifandi mannvera sem hefur val og tekur meðvitaðar ákvarðanir.



Prinsi í uppsveiflu

Wednesday, April 9, 2008

Litlir sigrar...

Prinsinn hefur haft nóg fyrir stafni undanfarna dag, hefur m.a

- Haldið áfram með úttekt á sundstöðum stórborgarsvæðisins
- Fundið fyrir minnimáttartilfinningu
- Setið á skólabekk í stjórnmálaskóla stjórnmálaflokks
- Fengið misgóðar viðskiptahugmyndir
- Komið allt of seint í afmæli og tekið sér stöðu húrra stjóra
- Þýtt norskt barnaleikrit
- Dottað yfir fyrirlestri Al Gore, þegar ég var búinn að missa alla von um að Dorrit ezkan væri á svæðinu
- Farið á tango námskeið fyrir karlmenn
- Fengið barnafjölskyldur í brunsh og lesið barnabók fyrir viðstadda þ.e.s foreldrana
- Setið út á verönd og skoðað eigin markmið með tilheyrandi niðurgangi og uppgangi
- Drukkið "einu" glasi of mikið af hvítvíni með tilheyrandi afleiðingum daginn eftir
- Farið í matarboð til Yndisauka - maður kemur ekki að tómum kofanum hjá eigendum veisluþjónustu
- Svitnað á útsölu hjá heildsölu og prúttað
- Horft á vel valda þætti af Aðþrengdum eiginkonum
- Skellt sér á sýningu hjá Þjóðleikhúsinu á Sá ljóti
- Fundið nýtt uppáhaldskaffihús í menningarborginni
- Fræðst um tilgang verkefnisins Kindur.is

...Já Prinsinn hefur ekki setið alveg aðgerðalaus síðustu daga!


Prinsi

Wednesday, April 2, 2008

Hver er afstaðan?

Þar kom að því. Eftir létt matarboð í gærkvöldi og smá rauðvínsslettu ákvað Prinsinn að nú væri rétti tíminn til að starta aftur í Boot-camp og dressaði hann sig því upp í morgun, skellti Nike skikkjunni yfir axlirnar og kórónunni á höfuðið og leyfði First lady að draga sig út í Pútuna.

Trukkabílstjórar sáu til þess að Prinsinn kæmist ekki í þetta embættisverk sitt. Það var allt stopp frá Kópavogsbrúnni í báðar áttir. Prinsinn brosti út í annað og slakaði vatnsbrúsanum ofaní tösku. Prinsinn og First lady ákváðu að taka þátt í þessum mótmælum, með glöðu geði - höfðum þó tækifæri á að snúa við en í stað þess að snúa við, drápum við á bílnum og hlustuðum á útvarpið í klukkustund. Í rauninni var ég hissa á hversu margir reyndu að stytta sér leið á einhvern hátt, jafnvel að aka yfir skurð á milli brautanna. Greiðir þetta fólk ekki sitt bensín sjálft, mér er spurn? Ég skil reyndar ef fólk hefur þurft nauðsynlega að komast í tíma hjá lækni o.þ.h en aðrir? Afhverju ekki að leyfa þessum mótmælum að hafa áhrif á samfélagið og sýna þannig samstöðu. Ég hrífst af fólki sem þorir og velur að taka afstöðu til mála og ég dáist að trukkabílstjórum fyrir að sýna samstöðu og þannig sýna fyrir hverju þeir eru tilbúnir að berjast fyrir þegar þeir telja ekki á sig hlustað. Að mínu mati erum við Íslendingar löt í að sýna fyrir hvað við stöndum - við látum valta yfir okkur og jafnvel nennum við ekki einu sinni að setja okkur inn í málin og þannig forðast það hlutverk að vera ábyrgur samfélagsþegn. Við lokum okkur af í okkar eigin litla "búri" og sleppum að huga að heildarmyndinni.

Að sjálfsögðu tel ég það ekki vera lausn allra vandamála að hefja mótmælaaðgerðir - en hvað skal gera þegar maður upplifir að ekki sé hlustað á skoðanir manns. Er það bara: "Já takk, ég reyni bara aftur síðar."?

Og hvers vegna hafa olíufélögin efni á að gefa slíkan afslátt af bensíni og díselolíu í dag og raunin er. N1 auglýsti 25 krónu afslátt af bensínlítranum í dag meðan byrgðir endast. Var þetta bensín keypt í einhverri heildsölunni?

Nú hefur Prinsinn ekki séð sér fært að taka hagfræðikúrsana né heldur viðskiptafræðinámskeiðin í kvöldskólanum en mín almenn kunnátta og tilfinning segir mér að hér sé verið að plata mig. Í dag hef ég fylgst með fólki flykkjast á besnínstöðvarnar og fylla tankinn með afslætti. Þessum sama afslætti sem það hefur þegar borgað sjálft fyrir með eilífum hækkunum á bensínverði. Þannig að við sýnum í verki að við erum þakklát fyrir afsláttin, við sýnum aftur á móti ekki í verki þegar við erum ósátt... förum samt og fyllum tankinn. Það verður engin aukning í notkun á almenningssamgöngum né heldur sér maður fleiri hjól dregin út úr bílskúrnum. Við látum líkt og við séum kúguð þjóð - erum við það?


Prinsi til í slaginn