Thursday, September 25, 2008

Stefan mælir með...

í dag mælir Stefan með:

- Hringja í vini sem hafa ekki látið heyra frá sér í furðu langan tíma og skella á - þegar þeir svo hringja til baka þá mælir Stefan með að láta hringja út og sýna þannig hversu upptekinn þú ert.

- Nú fer að líða að helgi og sumir jafnvel farnir að plana heimsókn í Ríkisbúlluna, þurrir í hálsinum. Stefan mælir með að leggja bílnum, nýþveggnum auðvitað, á bílastæði nærliggjandi verslana til að forðast dóm annarra - leyfir þér líka að dæma aðra enn harðar.

- Stefan mælir með að þú gangir ekki beint að sama rekka og vanalega, í Ríkisbúllunni, til að hrifsa til þín ódýra hvítvínsdúnkinn heldur biðjir um fagmannlega aðstoð með spurningum líkt og: "Ég er með lítið boð, langar að bjóða upp á eitthvað...." eða segir frekar hátt: "Ég kem svo sjaldan hingað, ég veit varla að hverju ég er að leita".

-Stefan mælir með lituðum kubbakertum úr Tiger fyrir öll litlu heimilisboðin - þannig má lífga upp á annars mjög þunglindisleg fjölskylduboð. Þó ber að varast að trítla út a götu með merktan poka - mun betra og gefur þér punkta í smart-kladdann að taka með poka úr örlítið fínni verslunarkeðju.

-Til að fullkoma helgina er nauðsynlegt að láta sjá sig á nokkrum stöðum og gefa þannig til kynna að þú lifir innihaldsríku lífi og sért ákaflega félagslega vel tengdur. Ef þú ert upptekinn með gúrkumaskann og frek börn þá nægir þér að versla í Hagkaup Kringlunni á föstudegi, taka stuttan göngutúr við vinsælt bílastæði í Heiðmörk á laugardagsmorgni og panta svo eitt léttvínsglas á stað í miðborginni á laugardagseftirmiðdegi - það þýðir ekki að sulla yfir sig öli á kjallaraknæpunni, það sér þig engin þar. Skildu gríslingana eftir í Hallargarðinum, þú getur bundið þau við runna ef þörf þykir. Það eru alls ekki rétt skilaboð að drösla óvitunum inn á kaffihús - það gefur ekki þau skilaboð að þú lifir innihaldsríku lífi með stjórn á hlutunum. Með þessum þrem stoppum er hægt að bjarga sér um helgar og þú getur þá leyft þér að liggja heima í gamla jogginginu - mundu bara að svara ekki símanum þegar þú liggur heima.

Stefan lætur hér við sitja í dag, beinn í baki, og óskar ykkur öllum góðrar helgar.

No comments: